like

föstudagur, 14. júní 2013

Sítrónukjúklingabringa með sætum kartöflum


Ég veit um fátt betra en góða kjúklingabringu með góðu ofnbökuðu rótargrænmeti. Þessi uppskrift er virkilega einföld en einfalt er oft best!

Grunnuppskriftin er fyrir 4 en auðvitað eykst/fækkar þeim sem eldað er fyrir með hverri kjúklingabringunni. Allavega skv. mínum bókum er æskilegt að framreiða eina kjúklingabringu per mann.

Sítrónukjúklingur



Uppskrift

4 kjúklingabringur
Salt
Pipar
1-2 sítrónur
Sítrónupipar (ef vill)
Ólífuolía
Parmesan ostur

Aðferð

1. Fyrst er slatti af ólífuolíu sett á pönnuna og pannan hituð, þegar að olían er farin að hitna (en þó ekki um of) þá er bringunum skellt á pönnuna. Þegar að hliðin sem verið er að steikja er orðin hvít þá sný ég bringunni við og salta, pipra og kreisti sítrónusafa yfir ''smá steiktu'' hliðina. Oft myndast svolítil gufa og fjör þegar að sítrónusafinn skellur á pönnuna, en ekki vera hrædd... það er eðlilegt! Þið gerið það nákvæmlega sama við hina hliðina, saltið, piprið og setjið sítrónusafa yfir.

2. Mæli með því að framkvæma skref 1 nokkrum sinnum (þ.e. snúa bringunni oft við) , því meiri sítrónusafi... því betra. Stundum hef ég notað sítrónupipar og það er líka virkilega gott... gefur hins vegar öðruvísi bragð og þess vegna breyti ég á milli eftir því í hvernig stuði ég er í. 

3. Bringan er steikt þangað til að hún er alveg steikt í gegn - fyrir þá sem ekki vita þá er virkilega mikilvægt að steikja bringuna alveg í gegn og fylgjast vel með því. Ég er með gashellur og hjá mér tekur það kjúklinginn ca. 5 mín. á hvorri hlið til þess að verða fullsteiktur.

4. Þegar að bringurnar eru fullsteiktar mæli ég með því að kreista því sem eftir er af sítrónusafanum yfir kjúklinginn og leyfa honum að standa í smá stund.

5. Síðast en alls ekki síst þá mæli ég með því að rífa slatta af parmesan osti yfir kjúklinginn. Best er að hafa kjúklinginn heitan svo osturinn bráðni.

Tip: um daginn var ég á leiðinni í vinnuna og langaði í eitthvað gott nesti, þá rak ég augun í nýjar óeldaðar kjúklingabringur í ískápnum. Oft hefur maður ekki mikinn tími á morgnanna og því tók ég fram lítið eldfast mót, penslaði það með slatta af ólífuolíu og nuddaði bringunni upp úr olíunni, því næst kreisti ég sítrónusafa yfir og saltaði og pipraði. Því næst skellti ég mótinu inn í ofninn og eldaði bringuna í ca. 30 mín. Þá henti ég bringunni í nestisbox og tók ruccola salat með. Úr varð rosalega góð og ''djúsí'' kjúklingabringa og olíusítrónu-vökvann notaði ég sem dressingu yfir salatið. Einfalt en mjög gott!


Ofnbakaðar sætar kartöflur með fetaosti

Uppskrift

1 stór sæt kartafla/ 2 litlar
1 krukka af fetaosti
3 msk. ólífuolía

Aðferð

1. Hitið ofnin í 200°C.

2. Skerið sætu kartöflurnar í litla bita og setið í eldfast mót. 

2. Því næst skellið þið ólífuolíu eftir smekk yfir kartöflurnar (en 3 msk. er gott viðmið) og veltið kartöflunum upp úr olíunni. Tip: ef þið viljið að kartöflurnar verði með smá húð utan um mæli ég með því að setja u.þ.b. 2 tsk. af kartöflumjöli og hrista því saman við. 

3. Setið inn í ofn og bakið í ca. 30 mín.

4. Takið þá eldfasta mótið úr ofninum og dreifið fetaostinum vel yfir með skeið, passið ykkur að nýta líka alla olíuna og dreifa henni vel yfir kartöflurnar, hún gefur yndislegt bragð.

5. Setið eldfasta mótið aftur inn í ofn og bakið í ca. 10 mín. í viðbót eða þangað til að osturinn er bráðinn en ekki brúnn og stingið gaffli í einn kartöflubita og ykkar eigin smekkur mun segja ykkur hvort að þær séu tilbúnar eða ekki.


Ég fer sjaldnast 100% eftir uppskriftum, heldur er ég sífellt að fikta sjálf og elda eftir eigin sannfæringu. Sem dæmi má nefna er þessi (mjög einfalda) uppskrift alltaf elduð eftir mínu höfði en ég reyndi að troða allskonar mælieiningum og mínútufjölda inn. Ég hvet ykkur þó til þess að velta ykkur ekki alltof mikið upp úr smáatriðunum, heldur smakkið þið til og reynið að gera réttinn eftir eigin sannfæringu. Manni líður betur ef maður gefur fólki mat sem manni finnst góður að borða... ekki mat sem maður heldur að eigi að vera góður.

Ekki skemmir fyrir að skella svo salati með á diskinn. T.d. ruccola eða eitthvað slíkt. Fyrir mig þarf salatið bara að vera einfalt og án dressingar, vegna þess að það er svo gott bragð af kjúklingnum og kartöflunum.

Eigið góðan föstudag xxx

Ásthildur Emma.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli