like

sunnudagur, 30. júní 2013

Pizza


Bloggið fer hægt og rólega af stað... þetta kemur vonandi með tímanum, sjálf er ég vön því að kíkja inn á blogg daglega, refresha og vonast eftir nýrri færslu!

Við fjölskyldan eigum svokallaðan ''pizzastein'' og prófuðum að grilla pizzur á honum um daginn, það gekk alveg vonum framar og úr varð dýrindis máltíð. Oftast hef ég gert alvöru ítlaskan pizzubotn (eftir grunnupskrift frá Jamie Oliver) en ég elska HaPP pizzurnar svo mikið að ég er farin að nota þeirra útfærslu af botn oftar. Uppskriftin er virkilega bragðgóð en það besta er líklegast hvað það tekur stuttan tíma að búa botninn til. Lítið subb, öllu hellt saman í skál og þarf ekki að lyfta sér. Mæli með honum!

Uppskrift
5 dl heilhveiti eða spelt
½ dl haframjöl
½ dl af uppáhalds fræjunum ykkar
3 msk. þurrkað oreganó
½ msk. sjávarsalt
2 msk. vínsteinslyftiduft
2 ½ dl volgt vatn
4 msk. ólívuolía
4 msk. kókosolía
1. Setjið öll þurrefnin í sömu skál og blandið þeim saman. 
2. Bræðið kókosolíuna (t.d. með því að láta heitt vatn renna yfir krukkuna eða láta hana standa í heitu vatni) og blandið henni, ólífuolíunni og vatninu saman við þurrefnin. Magnið í uppskriftinni stemmir alveg en það skemmir ekki fyrir að hafa heilhveiti til hliðar sem þið getið bætt við eftir óskum. 
3. Hnoðið deiginu vel saman þar til úr verður þetta fína pizzubotna deig. Þetta er fremur stór uppskrift - þið getið gert margar litlar pizzur eða ég náði t.d. að gera tvær risastórar.
4. Bakið í u.þ.b. 10-15 mínútur við 200°. Mér finnst voða gott að forbaka botninn í nokkrar mínútur. 
Sósa
Ég hef nokkrum sinnum búið til ekta, ítalska pizzusósu frá grunni en hef ekki ennþá fundið hina fullkomnu uppskrift og ég vil alls ekki deila einhverri uppskrift með ykkur sem mér þykir ekkert svo rosalega góð. Oftast kaupi ég rauða ítalska sósu út í búð, hita hana í potti og bæti við kryddum (eða hverju sem mér dettur í hug) til viðbótar þar til úr verður hin fullkomna sósa. Mæli með þessari. 

Álegg
Álegg, uppáhalds parturinn minn við pizzugerð. Hér er gaman því smekkur hvers og eins kemur í ljós. Í rauninni gilda engar reglur um álegg á pizzum - allt er til. Í þetta sinn gerðum við eina ekta Emmu pizzu og aðra humarpizzu, við sleiktum öll útundan - þær voru báðar æðislegar!

Ítalska pizzan:
Einhverntímann var mér sagt að litirnir í ítalska fánanum (rauður, hvítur og grænn) stæðu fyrir tómata, ost (t.d. mozzarella/ricotta) og basil. Það er líklegast algjör þvæla en ég leyfi mér að halda það... Ítalir eru þekktir fyrir góðan mat og ófáar uppskriftir innihalda basil, ost og/eða tómata. Ég elska þetta allt og allan ítalskan mat - mig dreymir um að fara til Ítalíu í hverri viku, það er svo dásamlegt að vera þar!

1 stór kúla af mozzarella osti
1 askja tómatar
Búnt af ferskum basil
Ruccola salat
Parmaskinka
Slatti af ólífuolíu

1. Ég forbakaði botninn, dreifði síðan sósunni jafnt yfir, skar niður mozzarella, tómata og basil og skellti því á pizzuna. Pizzan fór svo út á grillið þar til að hún var tilbúin!



2. Um leið og pizzan kom út úr ofninum skellti ég ólífuolíu yfir hana (líka stórgott að nota hvítlauksolíu) og síðan setti ég ruccola salatið, reif parmaskinkuna ofan á, aðeins meira af olíunni og loks salt og pipar.



Það sem þessi pizza var góð.... MMMmmm! Við vorum bara fjögur en hún kláraðist öll, svo góð var hún!

Sjávarréttapizzan

Við áttum svo mikið af humar að við ákváðum að gera eitthvað við hann. Úr varð dýrindis sjávarréttarpizza og hún var ekki síðri en sú ítalska.

Rækjur
Humar
Sveppir
Rauðlaukur
Ruccola salat
Ólífuolía
Rifinn mozzarella ostur

1. Við byrjuðum á því að smyrja botninn með tómatssósunni og næst smjörsteiktum við sveppina og laukinn, þegar að sveppirnir voru orðnir vel brúnaðir þá skelltum við blöndunni á botninn, næst rækjunum og humrinum. Stráðum ostinum yfir og skelltum henni inn á grillið.

2. Þegar að hún kom heit af grillinu dreifðum við ruccola salati yfir, söltuðum og pipruðum og settum að sjálfsögðu væna slettu af ólífuolíu.




Vonandi prófið þið þessar útfærslur og leikið ykkur með þær! Vonandi áttuð þið góða helgi.

xxx

Emma







miðvikudagur, 26. júní 2013

Himneskar brownies með hvítu súkkulaði


Þegar að venjulegt fólk fær súkkulaðilöngun hoppar það vanalega út í búð en sú er sko ekki raunin með mig... hausinn fer á fullt flug og í þetta sinn skellti ég í yndislegar brownies með bráðnu hvítu súkkulaði. Myndi ekki kalla mig mikla brownies konu og er ekki vön því að kaupa mér þær eða panta en þær allra bestu sem ég hef smakkað eru brownies-irnar frá HaPP. Þetta hljómar kannski eins og algjör klisja en þessar einföldu brownies gefa þeim frá HaPP ekkert eftir. Ég var ekki lengi að búa þær til heldur!

Hér kemur uppskriftin, ég lofa ykkur... þið verðið ekki svikin! Þær eru himneskar á bragðið, virkilega einfaldar og þið þurfið með öllum líkindum ekki að versla mikið inn.

Uppskrift

1.2 dl. af hveiti
1/8 tsk. salt
Kanill eftir smekk (ef þið viljið)
180 gr. dökkt súkkulaði (veljið súkkulaðið sem ykkur þykir best... mæli alltaf með því að velja það sem ykkur þykir best frekar en að fara beint eftir uppskrift/ gera öðrum til geðs)
170 gr. smjör
3 egg (miðlungs eða stór)
2.5 dl. sykur

Aðferð

1. Hitið ofninn í 175 gráður og smyrjið eldfast mót.

2. Blandið hveiti, salti og kanil saman í skál og setjið til hliðar. Ég nota oft bláa hveitið frá Kornax (sem er fyrir brauð og pizzubotna) kannski er það ekki ráðlagt en það er svo létt og í uppskrift eins og þessa þá virkar það ótrúlega vel.



3. Brytjið súkkulaðið eða brjótið það í sundur og bræðið það yfir vatnsbaði. Leyfið því að bráðna fyrst og hræðið síðan af og til í því, slökkvið á hitanum þegar að súkkulaðið er bráðið að mestu, takið skálina úr pottinum og hrærið þangað til að það leysist upp. Í stuttu máli: ekki hita súkkulaðið of mikið eða hafa það of heitt. Þegar að það er bráðið setjið þá smjörið út í, í bútum, ekki allt í einu. Hræðið þessu vel saman þangað til að allt leysist upp og úr verður góð blanda, sem er ekki of heit.



4. Takið þá þriðju skálina til og þeytið eggin þrjú og sykurinn saman á fullum hraða, þangað til að blandan verður ljós og létt... það tekur smá tíma (sjá mynd).



5. Hægið á hraðanum og skellið súkkulaðiblöndunni saman við og blandið saman... beitið ákveðnum handtökum. Þegar að blöndurnar tvær eru orðnar að einni þá megið þið skella hveitiblöndunni út í og  þá þurfið þið virkilega að passa ykkur á því að hræra ekki of mikið í deiginu... því færri handahreyfingar því betra.



6. Skellið deiginu í eldfasta mótið og beint inn í heitan ofninn. Hér verð ég að viðurkenna það að ég fylgist oftast ekki með tímanum, heldur sé ég alltaf þegar að kökurnar eru tilbúnar, svo er alltaf hægt að ''double checka'' með því að stinga prjón/gaffal í miðja kökuna. Þegar um er að ræða brownies þá er það líka svolítið smekksatriði hversu vel þið bakið kökuna. Það er að segja sumir vilja hafa hana mjúka í miðjunni en aðrir vilja hafa hana stífari og karamellukennda. Ég bakaði hana fullkomlega lengi að mínu mati (sjá mynd).




7. Á meðan að kakan er inni í ofninum mæli ég með því að bræða hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði (farið mjög varlega) Það er allt annað batterí að bræða hvítt súkkulaði. Maður þarf að fara mjög varlega vegna þess að það er léttara að eyðileggja það frekar en dekkra súkkulaði. Þegar að ég bræði dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði hita ég oftast vatnið í hraðsuðukatli og skelli því ofan í pott og set á heita hellu. Hinsvegar passa ég mig mjög vel með hvítt súkkulaði og set kalt kranavatn í pott og fylgist vel með því.


Ég mæli líka með því að búa til einfalda karamellusósu á meðan kakan bakast, þetta fer allt eftir matarsmekk hvers og eins. Ég mæli með hvítu súkkulaðidropunum frá Nóa Síríus en hér er uppskriftin að karamellusósunni:

1/2 bolli sykur
2 msk. vatn
2 msk. smjör, skorið í bita
2 msk. rjómi





Ég var löngu búin að ákveða að bera kökurnar fram með hvítu súkkulaði og ferskum berjum, þar sem að það er alltaf til nokkar tegundir af ferskum berjum heima hjá mér... en hversu týpískt! Ekki í þetta skipti. Ég skildi hvorki upp né niður en fattaði síðan að mamma var nýkomin heim frá útlöndum og hafði ekki farið í búðina síðan þá - og það er yfirleitt hún sem sér um ávaxta- og berjainnkaup. Kökurnar smökkuðust samt sem áður unaðslega með hvíta súkkulaðinu en næst reyni ég að hafa fersk ber með!



Njótið elsku lesendur - vonandi eldið þið einhverjar uppskriftir sem ég deili með ykkur og vonandi get ég eitthvað hjálpað.

Þangað til næst xxx


föstudagur, 14. júní 2013

Sítrónukjúklingabringa með sætum kartöflum


Ég veit um fátt betra en góða kjúklingabringu með góðu ofnbökuðu rótargrænmeti. Þessi uppskrift er virkilega einföld en einfalt er oft best!

Grunnuppskriftin er fyrir 4 en auðvitað eykst/fækkar þeim sem eldað er fyrir með hverri kjúklingabringunni. Allavega skv. mínum bókum er æskilegt að framreiða eina kjúklingabringu per mann.

Sítrónukjúklingur



Uppskrift

4 kjúklingabringur
Salt
Pipar
1-2 sítrónur
Sítrónupipar (ef vill)
Ólífuolía
Parmesan ostur

Aðferð

1. Fyrst er slatti af ólífuolíu sett á pönnuna og pannan hituð, þegar að olían er farin að hitna (en þó ekki um of) þá er bringunum skellt á pönnuna. Þegar að hliðin sem verið er að steikja er orðin hvít þá sný ég bringunni við og salta, pipra og kreisti sítrónusafa yfir ''smá steiktu'' hliðina. Oft myndast svolítil gufa og fjör þegar að sítrónusafinn skellur á pönnuna, en ekki vera hrædd... það er eðlilegt! Þið gerið það nákvæmlega sama við hina hliðina, saltið, piprið og setjið sítrónusafa yfir.

2. Mæli með því að framkvæma skref 1 nokkrum sinnum (þ.e. snúa bringunni oft við) , því meiri sítrónusafi... því betra. Stundum hef ég notað sítrónupipar og það er líka virkilega gott... gefur hins vegar öðruvísi bragð og þess vegna breyti ég á milli eftir því í hvernig stuði ég er í. 

3. Bringan er steikt þangað til að hún er alveg steikt í gegn - fyrir þá sem ekki vita þá er virkilega mikilvægt að steikja bringuna alveg í gegn og fylgjast vel með því. Ég er með gashellur og hjá mér tekur það kjúklinginn ca. 5 mín. á hvorri hlið til þess að verða fullsteiktur.

4. Þegar að bringurnar eru fullsteiktar mæli ég með því að kreista því sem eftir er af sítrónusafanum yfir kjúklinginn og leyfa honum að standa í smá stund.

5. Síðast en alls ekki síst þá mæli ég með því að rífa slatta af parmesan osti yfir kjúklinginn. Best er að hafa kjúklinginn heitan svo osturinn bráðni.

Tip: um daginn var ég á leiðinni í vinnuna og langaði í eitthvað gott nesti, þá rak ég augun í nýjar óeldaðar kjúklingabringur í ískápnum. Oft hefur maður ekki mikinn tími á morgnanna og því tók ég fram lítið eldfast mót, penslaði það með slatta af ólífuolíu og nuddaði bringunni upp úr olíunni, því næst kreisti ég sítrónusafa yfir og saltaði og pipraði. Því næst skellti ég mótinu inn í ofninn og eldaði bringuna í ca. 30 mín. Þá henti ég bringunni í nestisbox og tók ruccola salat með. Úr varð rosalega góð og ''djúsí'' kjúklingabringa og olíusítrónu-vökvann notaði ég sem dressingu yfir salatið. Einfalt en mjög gott!


Ofnbakaðar sætar kartöflur með fetaosti

Uppskrift

1 stór sæt kartafla/ 2 litlar
1 krukka af fetaosti
3 msk. ólífuolía

Aðferð

1. Hitið ofnin í 200°C.

2. Skerið sætu kartöflurnar í litla bita og setið í eldfast mót. 

2. Því næst skellið þið ólífuolíu eftir smekk yfir kartöflurnar (en 3 msk. er gott viðmið) og veltið kartöflunum upp úr olíunni. Tip: ef þið viljið að kartöflurnar verði með smá húð utan um mæli ég með því að setja u.þ.b. 2 tsk. af kartöflumjöli og hrista því saman við. 

3. Setið inn í ofn og bakið í ca. 30 mín.

4. Takið þá eldfasta mótið úr ofninum og dreifið fetaostinum vel yfir með skeið, passið ykkur að nýta líka alla olíuna og dreifa henni vel yfir kartöflurnar, hún gefur yndislegt bragð.

5. Setið eldfasta mótið aftur inn í ofn og bakið í ca. 10 mín. í viðbót eða þangað til að osturinn er bráðinn en ekki brúnn og stingið gaffli í einn kartöflubita og ykkar eigin smekkur mun segja ykkur hvort að þær séu tilbúnar eða ekki.


Ég fer sjaldnast 100% eftir uppskriftum, heldur er ég sífellt að fikta sjálf og elda eftir eigin sannfæringu. Sem dæmi má nefna er þessi (mjög einfalda) uppskrift alltaf elduð eftir mínu höfði en ég reyndi að troða allskonar mælieiningum og mínútufjölda inn. Ég hvet ykkur þó til þess að velta ykkur ekki alltof mikið upp úr smáatriðunum, heldur smakkið þið til og reynið að gera réttinn eftir eigin sannfæringu. Manni líður betur ef maður gefur fólki mat sem manni finnst góður að borða... ekki mat sem maður heldur að eigi að vera góður.

Ekki skemmir fyrir að skella svo salati með á diskinn. T.d. ruccola eða eitthvað slíkt. Fyrir mig þarf salatið bara að vera einfalt og án dressingar, vegna þess að það er svo gott bragð af kjúklingnum og kartöflunum.

Eigið góðan föstudag xxx

Ásthildur Emma.



fimmtudagur, 13. júní 2013

Nýtt!

Eftir að hafa gengið um með þessa hugmynd lengi í maganum lét ég hana loksins verða að veruleika. Aldrei datt mér í hug að það myndi gerast en síðastliðnar vikur hafa margir komið til mín og stungið upp á því, af fyrra bragði. Þess vegna ákvað ég að stinga mér ofan í djúpu laugina og hér er ég, að skrifa fyrsta bloggið mitt á nýju síðunni, Emma eldar.


Sumarlegur desert - vanilluskyrkökur með ferskum berjum og tvenns konar súkkulaði. Hann er æðislegur og slær alltaf í gegn!


Daglega fylgist ég með mörgum bloggum. Flest eru þau sænsk, sum íslensk og önnur frá mismunandi löndum. Mér finnst ''blogg-menningin'' skemmtileg og hef trú á því að hún sé aftur komin til Íslands... enn og aftur erum við skrefinu á eftir vinum okkar í Svíþjóð.


Uppáhaldið mitt - sítrónukjúklingabringa með parmesan og ofnbakaðar sætar kartöflur með fetaosti. Uppskrift kemur mjög fljótlega. 


Þeir sem þekkja mig eða hafa fylgst með mér vita hversu mikið ég elska matreiðslu, bakstur, eldamennsku og öllu sem því fylgir. Það má með sanni segja að þetta sé mitt stærsta áhugamál og af hverju ekki að deila því sem maður elskar með öðrum? Nei ég bara spyr.


Einfaldur sunnudags brunch - þeir hafa nú oft verið betri en mér finnst þessi mynd bara svo falleg.


Í stuttu máli, vonandi njótið þið bloggsins - það er markmið númer eitt, tvö og þrjú!

Knús og kossar,

Ásthildur Emma.