Þegar að ég var aðeins yngri, alls ekki fyrir svo mörgum árum, þá voru amerískar pönnukökur alls ekki vinsælar á Íslandi. Fáir vissu af þeim og enn þá færri kunnu að gera þær... þessu man ég eftir vegna þess að ég þekkti eina fjölskyldu sem bakaði amerískar pönnukökur á hverjum sunnudegi og fólk var sífellt að spyrja hver munurinn á þeim amerísku og íslensku væri eiginlega. Í dag finnast þær aftur á móti allsstaðar, mér þótti þær aldrei góðar... en það hefur komið með tímanum. Á Íslandi finnst mér þær bestar á Laundromat. Þar sem að þær eru fullkomnar í brunch/morgunmat var ég lengi að leita að bestu uppskriftinni, og hana fann ég! Ég hef sett inn ófáar Instagram myndir af pönnukökunum. Einfaldlega vegna þess að þær eru svo einfaldar, fljótgerðar og það er oftast til allt í þær. Þær eru bestar. Skemmtilegast finnst mér að búa þær til fyrir bróður minn og vekja hann með lyktinni, en ég hef líka skellt í þær við mörg önnur tilefni!
Uppskrift
300 gr. hveiti
4 tsk. lyftiduft
50 gr. sykur
3/4 tsk. salt
2 egg
2 dl ab mjólk
2 dl mjólk
70 gr. brætt smjör
2-3 tsk. vanilludropar (helst eðal vanilluessens!)
Aðferð
1. Byrjið á því að sigta öll þurrefnin saman. Það fer eftir því hversu mikinn tíma þið hafið, hvað þið gerið það oft. Ef þið eruð bara að dunda ykkur mæli ég með því að sigta þurrefnin 2-3 sinnum.
2. Setjið fyrst eitt egg saman við og hrærið vel saman, eins vel og þið getið. Því næst setjið þið 1 dl af mjólkinni og 1 dl af ab mjólkinni, hrærið því vel saman. Þegar að blandan er orðin jöfn setjið þá seinna eggið saman við og síðar restinni af mjólkinni.
3. Þegar að blandan er orðin kekkjalaus og fín skellið þá brædda smjörinu og vanilludropunum saman við.
4. Takið þá fram pönnu, ég nota alltaf gömlu, góðu pönnukökupönnuna en það er líka hægt að nota viðloðunarfría pönnu. Hafið smjör til hliðar og setjið reglulega væna smjörklípu út á pönnuna, sérstaklega í upphafi... passið ykkur samt á því að setja ekki of mikið af smjöri!
5. Smjörklípa er sett út á pönnuna, þegar að smjörið er alveg brætt og pínulitlar búbblur eru farnar að myndast (smjörið er þó alls ekki farið að breyta um lit) skellið þá ca. 3/4 dl. á pönnuna. Þið munuð fljótt finna út hve mikið deig þarf fyrir eina pönnuköku! Pönnukökurnar lyfta sér að sjálfsögðu á pönnunni, þar sem að þær innihalda lyftiduft.
6. Þegar að önnur hliðin er bökuð og sú sem snýr upp er með fullt af (loft)bólum, notið þá spaðann til þess að snúa henni við. Hafið disk til hliðar til þess að setja tilbúnu pönnukökurnar á.
7. Berið þær fram með ferskum berjum, bráðnu súkkulaði, nutella, hnetusmjöri, ferskum ávöxtum, HLYNSÝRÓPI, smjöri, karamellusósu, sultu, sykri, rjóma eða hverju sem ykkur dettur í hug! Hlynsýrópið er alveg krúsjalt með pönnukökunum, sem innihalda ekki mikinn sykur.
Emma
Engin ummæli:
Skrifa ummæli